Gleymum ekki þeim sem minna hafa

Egill P. Egilsson
Egill P. Egilsson

Það er óskandi að allir séu komnir í jólaskap og gleðin ráði ríkjum nú þegar aðventan er í algleymingi. Jólin eru jú tími kærleika og friðar, hátíð barna og fjölskyldunnar.

Það er því erfitt að gera sér í hugarlund að þessar vikurnar geti verið uppspretta kvíða og vanlíðan. Jólin kosta nefnilega skyldinginn og kröfurnar um að allt sé fullkomið verða sífellt meiri. Fjölmargar fjölskyldur og einstaklingar á svæðinu búa við skort og áhyggjur um að ná ekki endum saman í jólamánuðinum. Það er hlutskipti sem ég óska engum. En það er engu að síður staðreynd að allt í kringum okkur þrífst fátækt, og eymdin sem henni fylgir.

Í blaði dagsins er að finna umfjöllun um Matargjafir á Akureyri og nágrennis. Tvær óeigingjarnar konur sem hafa lagt á sig tíma og erfiði í sjö ár við að koma þeim til hjálpar sem lítið hafa á milli handanna.

Þetta er þriðja umfjöllun um velgjörðarstarf af þessu tagi sem Vikublaðið birtir á aðventunni. Allt hver sinn velgjörðarsjóðurinn. Það er eitthvað svo nístandi sárt að vita til þess að þrír mismunandi hópar í Eyjafirði og austur til Þingeyjarsýslna þurfi að sinna starfi sem öll vildum við að væri óþarft. Að á Íslandi allsnægtanna, einu ríkasta landi heims sé ekki enn búið að útrýma fátækt.

Hins vegar er gleðilegt að verða vitni af öllum þeim náungakærleika sem svífur nú yfir vötnum. Að finna að alltaf er nóg af fólki í litlu samfélögunum okkar sem finnur til samkenndar með þeim sem minna hafa. Enda er það sammerkt með öllum þessum umfjöllunum sem ég vísa til; að allir sem sækja um aðstoð, fá hana.

Það er varla hægt að hugsa sér verra hlutskipti en að þurfa segja börnum sínum að það verði engar jólagjafir í ár. Að jólasteikin verði að bíða betri tíma eða þurfa útskýra fyrir börnunum af hverju jólasveinninn kemur ekki til þeirra eins og allra hinna.

Um leið og ég óska öllum lesendum gleðilegrar aðventu þá vil ég hvetja ykkur til að styrkja einhverja af þeim jólasöfnunum sem við höfum fjallað um ef þið eruð aflögu fær, eða láta vita ef þið vitið af einhverjum í neyð. Og vonum svo að fátæktin muni sem fyrst tilheyra fortíðinni.

Góðar stundir.

Egill P. Egilsson

ritstjóri


Athugasemdir

Nýjast