Útilegumenn á meðal okkar

Ljósmynd: Auðunn Níelsson
Ljósmynd: Auðunn Níelsson

Svavar Alfreð Jónsson skrifar um uppsetningu Leikfélags Akureyrar á Skugga-Sveini

Svavar

Fundum okkar Skugga-Sveins bar fyrst saman í Samkomuhúsinu á Akureyri veturinn 1979 þegar leikfélag bæjarins sýndi samnefnt leikrit Matthíasar Jochumssonar. Þá sat ég í því sögufræga húsi við hlið menntaskólastúlku svarfdælskrar. Theodór Júlíusson lék fyrir okkur Skugga-Svein. Eflaust hefur hann gert það vel en minnisstæðast úr sýningunni er mér þó atriðið þegar Haraldur útilegumaður, sem leikinn var af Evert Ingólfssyni, bjargaði lífi sýslumannsdótturinnar en hana lék Svanhildur Jóhannesdóttir. Í hápunkti þeirrar miklu dramatíkur vildi ekki betur til en svo, að leikmyndin hrundi yfir þau skötuhjú með slíkum fyrirgangi, að eitt andartak varð lífshættan í leikhúsinu afar raunveruleg. Allt fór þó vel, leikritið kláraðist eftir sínum leiðum og listamenn uppskáru dynjandi lófatak áhorfenda. 

            Síðan liðu rúmir fjórir áratugir. Sessunautarnir, sem urðu hjón nokkrum árum eftir leikhúsferðina góðu, eru mætt í gamla góða Samkomuhúsið til að sjá sama stykkið. Að þessu sinni hafa Einar Rúnarsson og félagar fest leikmyndina svo tryggilega að ekkert er að óttast. Enn eru útilegumenn á kreiki. Sviðsfjalir Samkomuhússins taka á ný að marra undan þungu fótataki Skugga-Sveins.  

            Þegar sr. Bolli Gústafsson ritaði ítarlegan leikdóm í Morgunblaðið í janúar 1979 um uppfærslu LA á þessu einu alvinsælasta viðfangsefni íslenskrar leiklistar, var fyrirsögn hans þessi:  

„Svona eiga Skugga-Sveinar að vera“ 

Skuggasveinn

Ljósmynd: Auðunn Níelsson            

Einn styrkur þessarar nýjustu sviðsetningar Leikfélags Akureyrar á verkinu er sá, að þessi Skugga-Sveinn er ekki eins og hann á að vera. Hann er öðruvísi. Hann kemur á óvart og sýnir á sér óvæntar hliðar. Gömul og klassísk verk eiga á hættu að verða að klisjum. Endurtekningin tyggur úr þeim safann og bragðið. Aðstandendum sýningarinnar hefur tekist að forða þessu sígilda íslenska bókmenntaverki frá þeim örlögum. Það má þakka mörgu. Í fyrsta lagi leikgerðinni, sem er verk leikstjórans, Mörtu Nordal, og leikhópsins alls. Í öðru lagi umhverfinu sem verkinu er skapað. Þar ganga ýmist alíslenskir útilegumenn fram á gnípur eða klofgleiðir kabojar miða byssum. Skugga-Sveinn Leikfélags Akureyrar árið 2022 er einskonar sviðalappavestri. Í þriðja lagi er textinn frumlegur þótt líka sé því sýnd tryggð og virðing sem þjóðskáldið setti saman þegar hann samdi verkið árið 1862. Sýningin er að því leyti vel heppnuð blanda þess gamla og nýja og að minni hyggju gott dæmi um hvernig halda megi hefðinni lifandi og gera hana nálæga samtíðinni. Notkun á eftirprentunum hinna upprunalegu leiktjalda Sigurðar málara er í þeim anda. Vilhjálmur B. Bragason semur nýja söngtexta sem sóma sér vel með kveðskap Matthíasar. Ekki má gleyma tónlist og útsetningum Sævars Helga Jóhannssonar þar sem kallast á stef aftan úr öldum og nýrri hljómar. Leikmyndin, ljósin, búningarnir, leikstjórnin, sviðshreyfingar, hljóðhönnun, húsnæðið og framvinda verksins, allt á þetta sinn þátt í að það markmið sýningarinnar næst, að miðla 160 ára gömlu verki til leikhúsgesta þannig að það höfði sterkt til þeirra.  Rosknu hjónin af Syðri-Brekkunni sem sátu á aftasta bekk Samkomuhússins á þessari frumsýningu skemmtu sér hið besta og voru snortin af því sem þau upplifðu. 

            Á sínum tíma lék Jón Steingrímsson Skugga-Svein í Samkomuhúsinu með slíkum ágætum að lengi var umtalað. Síðar sté þar á svið í sama hlutverki gæðaleikarinn Theodór Júlíusson. Nú gefst gestum Samkomuhússins á Akureyri kostur á að sjá Skuggasveininn Jón Gnarr. Af honum verður enginn svikinn og ég efast um að á okkar tímum hefði verið hægt að finna betri mann í djobbið. Við hjónin vorum sammála um, að allir leikararnir ættu að fá hæstu einkunn. Leikgleði þeirra leyndi sér ekki. Sýningin hefur mikið skemmtanagildi en hún vekur líka til umhugsunar. Skugga-Sveinn er alls ekki innihaldslaust verk og á sitt erindi við okkar tíma. 

Útlagar eru ekki bara á fjöllum og þeir finnast víðar en á Íslandi. Alstaðar fyrirfinnst fólk sem komist hefur í kast við lögin eða hefur einhverra hluta vegna ekki séð sér fært að þrífast í samfélagi við aðra. Alstaðar í heiminum er fólki úthýst. Alstaðar er það hundelt af refsigleðinni. Alstaðar líða saklausir fyrir blint réttlæti. Skugga-Sveinn gæti gerst hvar sem er því mannlegt eðli er alstaðar eins.  

            Stemningin var alveg glimrandi þessa kvöldstund í gamla Samkomuhúsinu. Við óskum Leikfélagi Akureyrar til hamingju með metnaðarfulla, djarfa, skemmtilega og frjóa sýningu og hvetjum Akureyringa og aðkomumenn alla til að drífa sig í Samkomuhúsið hið snarasta. 

Svavar Alfreð Jónsson 


Athugasemdir

Nýjast