Spámennirnir

Huld Hafliðadóttir
Huld Hafliðadóttir

Huld Hafliðadóttir skrifar

Það er víst þannig að fáir eru lifandi spámenn í sínu heimalandi. Sem dæmi vilja þjóðverjar lítið kannast við stórhljómsveitina Rammstein, sem syngur oftar en ekki ádeilu á stjórnvöld og heimsmynd sína. Íslendingar voru lengi að meðtaka Sigurrós sem þá hafði farið sigurför um heiminn og komið Íslandi rækilega á kortið og ef horft er enn lengra aftur var sjálfur Albert Einstein gerður brottrækur úr sínu heimalandi fyrir falsvísindi sem samræmdust ekki stefnu þáverandi stjórnvalda. Einstein hélt því m.a. fram að ímyndunaraflið væri mun mikilvægara en vitneskja. Vitneskja væri takmörkuð en ímyndunaraflið bæri mann hringinn í kringum hnöttinn.

Brennudómar voru felldir yfir fólki allt frá 14. öld sem fór ótroðnar slóðir og hafði ólíka sýn á heiminn en flestir. Það var bendlað við galdra og kukl. Ef við notum kenningu Einsteins, þá hafði það fólk líklega meira ímyndunarafl en aðrir, og þeir sem felldu dómana höfðu aðeins takmarkaða vitneskju.

En það er gott að vera vitur eftir á. Og það er líka ofboðslega gott og gagnlegt að horfa í kringum sig með opnum huga, nýta tækifærið og reyna að vera vitur hér og nú. Finna hina hversdagslegu spámenn okkar tíma og leyfa þeim að krydda tilveruna. Spámaður er auðvitað bara spámaður. Það þarf ekki allt að vera satt og rétt sem hann segir, en kannski er það heldur ekki alvitlaust. Í raun, þegar öllu er á botninn hvolft, er þetta spurning um opinn huga, fordómaleysi og örlítið dass af ímyndunarafli. Er lífið nokkuð svona svart/hvítt? Eru ekki fleiri hliðar á teningnum en sú sem snýr að okkur? Ef við vitum að svo er, þá leggjum við vitneskjunni sem oftast er takmörkuð og bundin við ákveðinn tíma, og opnum fyrir ímyndunaraflið. Eru þarna fimm aðrar hliðar? Eða er þetta kannski ekki teningur? Er þetta hringur? 
Það gæti þó ekki verið...


Athugasemdir

Nýjast