Hvernig er samfélagið okkar?

Samfélag sem ekki getur orðið við lögvörðum rétti fatlaðra til þjónustu, sem getur umborið að veikt barn sé sótt inn á Landspítalann með lögregluvaldi og látið húka á Keflavíkurflugvelli meðan ríkisstjórn landsins rambar á barmi stjórnarslita, samfélag sem lætur nútíma þrælahald viðgangast gegnum starfsmannaleigur, samfélag þar sem andlega veikt fólk fær ekki aðstoð fyrr en það er of seint og saklaus líf glatast, samfélag sem telur það eðlilega umgengni að ofbeldismenn geti fengið að vera einir með börnum sínum, samfélag þar sem fjöldi karlmanna telur það sinn sjálfsagða rétt að geta keypti líkama kvenna, kvenna sem eru ýmist hraktar eða neyddar í vændi, fluttar til landsins eins og hver annar varningur til sölu og neyslu, kjötskrokkar.

Lesa meira

Gott, grænt og gult fótboltasumar í sumar

Það gladdi alla Norðlendinga þegar karlalið KA varð Bikarmeistari í knattspyrnu í fyrsta skipti í sögu félagsins. KA var vel að þessum sigri komið, gleði og stolt þeirra einlægt. En við Þingeyingar, sem erum ekki þekktir fyrir mikla hógværð, viljum benda á staðreyndir sem tengjast þessu afreki

Lesa meira

,,Ert þú Palli Rist?"

,,Ert þú Palli Rist?" sagði mjóslegin rödd að baki mér þegar ég gekk norður Brekkugötuna.  Ég sneri mér við og sá lítinn dreng sem stóð inni í garði við snyrtilegt hús. Ég svaraði og gekkst fúslega við því að vera ekki Páll Rist.  Við tókum svo stutt spjall þarna saman sveitungarnir um hugarefni dagsins, einkum þó þau sem voru unga manninum efst í huga.

Lesa meira

Að kafna úr frekju.

Eitt sinn gekk ég fram á leiði ókunnugs manns. Á steininum hans stóð „menn eiga að hafa vit á því að vera í góðu skapi.” Mér fannst þetta svo gott að ég lagði það á minnið og rifja það gjarnan upp með sjálfri mér þegar ég er ljót í hugsun, sjálfhverf og leiðinleg. Það gerist því miður of oft. Ef auðmýkt er fyrir hendi er hægt að rækta með sér gleði og háttprýði og verða skárri manneskja í dag en í gær. Það er ef til vill ágætis áskorun til okkar allra nú um stundir.

Lesa meira

Lokaorðið - Og við verðum öll að geta hlustað.

Það getur ekki öllum liðið alltaf vel. En það á heldur engum að líða alltaf illa. Passleg blanda er líklega best, horfa bjartsýn fram á veg, snúa baki við skugganum. Vita af þungum steinum, en láta þá ekki hafa áhrif á sig. Lífsviðhorf sem ætti að vera auðvelt og einfalt, en er það ekki fyrir marga.

Alltof marga.

Lesa meira

Lokaorðið - Ich bin ein Berliner

Berlín 9. nóvember 1989

Eftir menntaskóla bjó ég einn vetur í München. Hugðist nú heldur betur læra þýskuna og tala eins og innfædd. Markmiðið var metnaðarfullt en árangurinn ekki í takt við það. Reyndar heldur faðir minn að ég sé þýsku sjéni því á ferðalögum okkar á ég það til að panta veitingar á þýsku. Við skulum ekki leiðrétta það.

Lesa meira

Lokaorðið-Loðna einkadóttirin

Ég átti aldrei gæludý í æsku, nema skjaldböku með systrum mínum. Henni var sturtað niður um klósettið, því allir héldu að hún væri dauð. Síðar fréttum við að trúlega hafi hún verið í dvala. Veit ekki hvað var rétt í því, en í minningunni átti hún ekki sérlega skemmtilegt líf og var sjálf ekki mjög fjörug. Ég var hins vegar mikið í sveitinni hjá ömmu og afa, vön dýrum þ.m.t. hinum hefðbundna sveitahundi sem var frammi í forstofu, ekki upp í sófum, borðum eða rúmum.

Lesa meira

Lokaorðið - Hve glöð er vor æska

Á vorin er uppskerutími nemenda. Þeir skoppa út úr skólunum, taka stolt á móti prófskírteinunum sínum og út í sumarið.

Lesa meira

Lokaorðið - Hádegi á sjöunda áratugnum.

Eftir því sem ég eldist hugsa ég meira og les meira um líf formæðra minna. Ekki þarf að fara langt aftur til þess að átta sig á hve tíðarandinn, fjárhagurinn og tækifærin voru gjörólík því sem við þekkjum í dag. Það þarf ekki lengra aftur en 50 - 60 ár.

 

Lesa meira

Lokaorðið - Að gera við ónýtt með ónýtu

,,Réttu bónda baggaspotta og hann reddar málunum“. Ég á gamla girðingu. Ég veit ekki alveg hversu gömul hún er, en þegar ég var að skottast með pabba í girðingarvinnu fyrir 40 árum síðan, þá var þetta ,,gamla girðingin“. Á hverju ári er gengið með gömlu girðingunni, reknir naglar í fúna staura, netið hengt upp, skipt um brotnu staurana og búta af gaddavír. Hún þarf bara að halda, ekki vera neitt augnayndi. Og hún er sannarlega ljót, víða búið að sauma saman netið með baggaspottum. En gerir sitt gagn, í augum sauðkinda lítur hún út fyrir að vera sterkari en hún er. Það er lengi hægt að tjasla í það sem ónýtt er, bæta við baggaböndin og styrkja lélegustu kaflana.

Ef ekki væri árlegt viðhald á gömlu girðingunni þá myndi hún fljótt leggjast alveg flöt og verða endanlega ónýt.

Lesa meira

Lokaorðið - Áhrifamáttur bæjarmiðla

Ég sem Húsvíkingur þekki vel til bæjarblaða. Víkurblað, með Jóhannes Sigurjónsson í stafni, var ætíð lesið spjaldanna á milli í hverri viku.

Lesa meira

Lokaorðið - Mæður allra alda

Það styttist trúlega í þriðju heimsstyrkjöldina, og þó er býsna stutt síðan þeirri síðustu lauk, elsta kynslóðin man þá tíma vel.

Lesa meira

Lokaorðið - Sumardagurinn fyrsti.

Sumardagurinn fyrsti er ævaforn hátíðisdagur á Íslandi. Þó líði aldir og kynslóðir komi og fari er ekkert sem Íslendingar þrá heitar en vorið. Hjörtun slá þá í mildum samhljóma takti og loks er liðin vetrarþraut. Sumardagurinn er einnig þekktur sem barnadagurinn. Í þéttbýlinu gerði fólk sér dagamun og klæddist sparifötum.

Lesa meira

Lokaorðið - Forgangslistinn

Eftir því sem ég eldist verð ég sífellt þakklátari fyrir að fá að ganga lífsins veg með fólkinu mínu. Við erum fámenn þjóð og höfum í gegnum tíðina staðið þétt saman. Við höfum lyft grettistaki í forvörnum vegna slysa á sjó og landi.

Lesa meira

Lokaorðið - Sjá gegnum fingur sér

Það var komið að bóklega bílprófinu hjá unglingnum. Þá fékk hann fína bílprófssögu hjá afa Flosa.  Afi tók bílprófið nefnilega þegar Willysinn kom, líklega 1947.

Lesa meira

Lokaorðið - Að breyta dimmu í dagsljós

Saga af móður, dóttur og hjúkrunarheimili. Móðirin var afar sjálfstæður bóndi og hafði fyrir löngu ákveðið að yrkja jörð sína til æviloka, fjörgömur og alein. Þrátt fyrir sjálfstæðið hafði henni stöku sinnum dottið í hug að færa sig á þéttbýlli stað, en þær tilraunir runnu jafnharðan út í sandinn. Hún ákvað þess í stað að fela dóttur sinni að setja sér stólinn fyrir dyrnar þegar að í óefni væri komið. Að setja einhverjum stólinn fyrir dyrnar var orðatiltæki sem einatt var notað á heimilinu og þýddi einfaldlega - hingað og ekki lengra.

Lesa meira

Að hlaða okkar eigin batterí

Samfélagið hefur tekið miklum breytingum á undanförnum áratugum. Sífellt áreiti bæði í starfi og leik. Það eru ekki bara blessuð börnin sem eiga erfitt að leggja símana og tölvurnar frá sér, við sem eldri erum, erum flest lítið skárri.

Lesa meira

Lokaorðið - Bölmóðssýki og brestir.

Í gegnum tíðina höfum við lært margt varðandi góða líkamlega heilsu. Við hættum að reykja, erum dugleg að hreyfa okkur og vitum allt um hollt mataræði. Við lítum vel út hið ytra, eldumst lítið og borðum lífrænt.

Lesa meira

Lokaorðið - Fótanuddtæki óskast

I know I used to be crazy
I know I used to be fun
You say I used to be wild
I say I used to be young.

Lesa meira

Lokaorðið - Börn óvelkomin

Um miðja síðustu öld voru vinkonurnar Elsa og Alla að ráða sig í sveit á sinnhvorn bæinn í Höfðahverfi. Í ráðningarferlinu kom babb í bátinn, annarri stúlkunni fylgdi tveggja ára drengur og hann vildi bóndinn ekki fá í vist, heldur vildi hann ráða barnlausu stúlkuna. Nú voru góð ráð dýr. Þær hringja í ekkjuna í Höfða og kanna hvort hún sé tilbúin að taka Elsu með barnið í vist. Ekki stóð á svari hjá Sigrúnu: ,,blessuð vertu, það er nóg pláss fyrir börn í Höfða”. Reyndist þetta mikið happaráð og mæðginin urðu hluti af Höfðafjölskyldunni.

Lesa meira

Lokaorðið - Fyrr en misst hefur.

Stundum þegar ég stend undir heitri sturtu eða hækka í ofnunum hugsa ég um hvað myndi gerast ef heita vatnið sem kemur úr iðrum jarðar gengur til þurrðar. „Láttu ekki ljósin loga né vatnið renna að óþörfu. Notaðu ekki meira en þú þarft.“ Þetta lífsstef foreldra minna hefur oft komið upp í hugann undanfarið. Þau lifðu byltinguna úr myrkri og kulda torfkofanna yfir í ljós og hita nútímans.

Á heimili mínu er til húsgang sem var smíðað árið 1917 og heitir servantur. Servantur er lítill skápur sem hafði að geyma vaskafat, tveggja lítra könnu fyrir vatn, sápustykki, lítið handklæði og þvottapoka. Servantur var inni í köldum herbergjum fólks og var bað- og snyrtiaðstaða þess tíma og langt fram á síðustu öld. Í dag er sjálfsagt að hafa tvö baðherbergi í húsum auk heitra potta í húsagörðum, upphituð bílastæði og raflýsingar allt um kring. En lífið er ekki sjálfsagt og lífsgæðin ekki heldur. Allt er í heiminum hverfult og getur snúist án fyrirvara. Það höfum við séð gerast á Suðurnesjum síðustu mánuði.

Við erum vanmáttug því náttúran er að hefja nýtt skeið sem við gleymdum að reikna með og enginn veit hvað framtíðin mun færa. En þó vanmáttug séum getum við þó gert eitt, sama hvar á landinu við búum. Við getum ígrundað hvernig við notum orkugjafana okkar því þeir eru hvorki sjálfgefnir né óþrjótandi. Við getum gengið betur um orku náttúrunnar, því enginn veit hvað átt hefur - fyrr en misst hefur.

Lesa meira

Lokaorðið - Um formæður

Eftir því sem þroskinn færist yfir mig, reikar hugurinn meira til formæðra minna. Íslenskt samfélag hefur á ógnarhraða tekið mikilum breytingum og því getur verið erfitt að setja sig í spor þeirra. Lífsstrit, örlög og lífsganga þeirra var afar ólík okkar. Stýrðu þær lífi sínu og hvaða tækifæri höfðu þær í raun?

Halldóra langalangamma mín var fædd 1863 á Brettingsstöðum á Flateyjardal. Hún var gift Sigurgeir Sigurðssyni frá Uppibæ í Flatey. Flateyjardalur liggur á milli Eyjafjarðar og Skjálfandaflóa, þekktur fyrir mikið vetrarríki og samgöngur því oft torveldar, sem er ástæða þess að dalurinn fór í eyði þegar búsetu lauk á Brettingsstöðum árið 1953.

Bærinn, sem stendur enn, er við sjóinn og stutt yfir í Flatey á Skjálfanda og því matarkista ágæt. Bæði var þar að finna fiska og fugla auk blessaðrar sauðkindarinnar sem löngum var uppistaða í fæðu okkar Íslendinga. Langir, kaldir og dimmir vetur í einangrun, en náttúrufegurðin alls ráðandi á sumardögum. Þangað var ekki auðsótt að fá lækni þótt börn veiktust.

Það þurfti útsjónasemi og seiglu að búa við svona einangrun. Tryggja varð að allir hefðu til hnífs og skeiðar og hlý föt á köldustu dögunum. Sjaldan hefur hún sett sjálfa sig í fyrsta sætið. Halldóra eignaðist 16 börn. Af þeim náðu 10 fullorðinsaldri, en tvö þeirra dóu úr taugaveiki um tvítugt. Hversu þung hafa spor foreldranna verið að fylgja 8 börnum sínum til grafar? Langamma mín Emilía fædd 1903 var næst yngst barna þeirra hjóna.

Afkomendur Halldóru eru 334, atgervismenn og fallegt sómafólk þótt ég segi sjálf frá.

 

Lesa meira

Lokaorðið - Eftirstöðvarnar

 Það eru allir undir sömu sökina seldir, hugsa með hrolli til Kóvid-tímans. Við hristum af okkur minningar um pestarhræðslu, innilokun, samkomutakmarkanir, örugga fjarlægð, Víðihlýðni, spritt, grímur og hanska. Myndir af heilgölluðum læknum og hjúkrunarfræðingum. Óttann við símtal frá smitrakningarteyminu.

Þó var ekki allt alslæmt. Foreldrar lærðu að meta betur störf kennara og leikskólakennara. Börn voru hraustari, enginn dirfðist að senda barn með hor í skóla eða leikskóla. Aðrar pestir létu lítið á sér kræla, þökk sé handþvottinum og sprittinu. Og nú kunna allir að nota Zoom og Teams, fjarfundir og streymi eru einfalt mál. Tvímælalaust stærsti ávinningurinn.

Börnin voru fljót að tileinka sér sóttvarnarsiði. Ég ákvað að nýta mér ástandið og taldi örverpinu trú um að jólasveinninn væri í sóttkví og af miklum klókindum var það útskýrt fyrir barninu að skórinn yrði að vera í stofuglugganum því rúm barnsins væri of nálægt glugganum. Þóttust foreldrarnir aldeilis hafa snúið skódæminu jólasveininum í vil.

Drengurinn setti dýrindis piparkökur í skóinn handa aumingja jólasveininum í sóttkvínni. Það sem jólasveinninn vissi ekki var að, í sóttvarnarskyni, höfðu piparkökurnar verið úðaðar með spritti. Umtalsverðu magni, líklega til að gæta fyllsta öryggis.

Þar sem tveir jólasveinar stóðu skyrpandi, bölvandi og ragnandi á stofugólfinu, þá og einmitt þá sameinuðust Höfðahjón í einlægu hatri á bæði veiru og öllum sóttvarnaraðgerðum.

Spritt hefur ekki verið haft hér uppi á borðum síðan þá.

Lesa meira

Lokaorðið - Er bíllinn í gangi?

Góðir nágrannar eru ómetanlegir. Þegar fjölskyldan mín flutti í götuna okkar fyrir aldarfjórðungi voru allir nágrannarnir frumbyggjar. Umgengni í götunni var metnaðarfull, allir samstíga með að klippa runna, moka snjó og hreinsa illgresið við gangséttarnar. Bílastæðin inná lóðunum og sjaldséð að bílar stæðu á götunni. Við vorum þá yngstu íbúarnir. Nú hafa gömlu góðu frumbyggjarnir tínst yfir móðuna miklu einn af öðrum. Einungis einn er eftir. Þannig týnist tíminn og við hjónin erum skyndilega komin í hóp þeirra elstu.

Nýtt fólk er komið við allar hliðar hússins okkar og sama hjálpsemin er eins og áður var. Unga fólkið hefur gát á gamlingjunum. Iðulega er einn nágranninn búinn að blása snjó af stéttinni fyrir framan húsið okkar og annar passar uppá að við gleymum ekki bílskúrnum opnum. Það var til dæmis notalegt að fá skilaboð frá grannkonu á dögunum.

Ég hafði verið að útrétta á bílnum seinnipart dags og var að bakka í stæðið þegar síminn hringdi og truflaði mig.  Í stað þess að hunsa símann svaraði ég og gleymdi mér svo. Grannkonan góða sagðist ekki geta gengið til náða fyrr en hún væri viss um eitt og spurði: „Er bíllinn ykkar í gangi?“ Það stóð heima, bíllinn var á sínum stað og hafði verið í gangi í marga klukkutíma. 

Já, góðir nágrannar eru ómetanlegir.

Lesa meira