Stjórnvaldssekt lögð á Samherja

Seðlabankinn hefur lagt fimmtán milljóna króna stjórnvaldssekt á Samherja fyrir brot á gjaldeyrislögum. Fyrirtækinu hafði áður verið boðið sáttaboð um greiðslu 8,5 milljóna sem það hafnaði og hyggst höfða ógildingarmál vegna sektarinnar.
Málið hófst þegar Seðlabankinn lét gera húsleit hjá Samherja árið 2012. Í kjölfarið tók sérstakur saksóknari við rannsókn málsins. Á síðasta ári tók saksóknari ákvörðun um að fella niður sakamál vegna þessara meintu brota. Seðlabankinn skoðaði í framhaldinu hvort tilefni væri til að beita stjórnvaldssektum.
Kom ekki til greina að semja
Í bréfi sem Þorsteinn Már Baldvinsson og Kristján Vilhelmsson sendu starfsmönnum kemur fram að framganga Seðlabankans í málinu hafi gengið mjög nærri stjórnendum og starfsfólki enda hafi hún verið „hin grimmilegasta“. Þá kemur jafnframt fram í bréfinu að þrátt fyrir að það hefði verið þægilegast að taka sáttatilboðinu í sumar og afskrifa þannig málið, hafi slíkt aldrei komið til greina.
Þá segir í bréfinu að sáttarboð Seðlabankans hafi verið til þess gert að breiða yfir afglöp bankans í málinu. „Til að breiða yfir þessi afglöp og fleiri sendi Seðlabankinn Samherja bréf um miðjan júlí þar sem reynt var að þvinga fram sátt gegn greiðslu fjársektar uppá 8,5 milljónir króna. Þrátt fyrir að það hefði verið þægilegast að taka þessu sáttarboði og afskrifa loksins málið, sem hófst með stærstu húsleit Íslandssögunnar og hefur tekið mikinn tíma og orku, kom það ekki til greina. Enda þótt hér hefði verið velt við hverjum steini í rekstrinum hefur Seðlabankinn oftar en einu sinni verið gerður afturreka með ásakanir sínar, útreikninga og aðferðir. Því var það aldrei valkostur af okkar hálfu að taka boði á röngum forsendum, bara til að losna,“ segir í bréfinu.
Samherji hafnaði því sáttarboðinu með rökstuðningi í ágúst síðastliðnum. Fyrirtækinu barst síðan stjórnvaldsákvörðun þann 1. september s.l. þess efnis að Seðlabankinn hefði ákveðið að leggja fjársekt á Samherja hf. upp á 15 milljónir króna.