Háskólinn á Akureyri eykur nemendafjölda í hjúkrunarfræði

Háskólinn á Akureyri. Mynd: Daníel Starrason
Háskólinn á Akureyri. Mynd: Daníel Starrason

„Áskorunin felst í takmörkunum á klínískum námsplássum en finna þarf nýjar leiðir til að finna lausn á takmarkandi þáttum við kennslu hjúkrunarnema,“ segir Eydís Kr. Sveinbjarnardóttir, forseti heilbrigðisvísindasviðs HA.

Heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri vill fjölga brautskráðum hjúkrunarfræðingum við skólann.  Á síðasta skólaári, 2015–2016, brautskráðust 53 hjúkrunarfræðingar frá hjúkrunarfræðideild HA og 58 hjúkrunarfræðingar frá hjúkrunarfræðideild HÍ. Ljóst er að það er ekki nægjanleg nýliðun til að takast á við þann skort á hjúkrunarfræðingum sem blasir við í heilbrigðiskerfi landsmanna. Í mannekluskýrslu Félags Íslenskra hjúkrunarfræðinga frá 2007 var áætlað að útskrifa þyrfti a.m.k. 145 hjúkrunarfræðinga á ári. Tekist hefur að útskrifa að meðaltali 80% af þessum fjölda á undanförnum sex árum frá HA og HÍ.

Háskólaráð Háskólans á Akureyri samþykkti í vor að fjölga þeim sem fara í gegnum samkeppnispróf við hjúkrunarfræðideild úr 50 í 55.  Í haust byrjaði 131 nemandi á fyrsta ári hjúkrunarfræði við HA og þeir munu þreyta samkeppnispróf til að komast áfram upp á vormisseri 2017. Í haust var jafnframt byrjað að kenna og starfa eftir nýrri námskrá í hjúkrunarfræði við HA. Námskráin hefur m.a. verið stytt og aðlöguð klínísku námi í sérgreinum hjúkrunar þar sem erfiðast hefur verið að koma hjúkrunarnemum í klínískt nám á heilbrigðisstofnunum.  Eydís Kr. Sveinbjarnardóttir, forseti heilbrigðisvísindasviðs HA, er sammála því að áskorunin við að fjölga hjúkrunarfræðinemum við háskólana felst í takmörkunum á fjölda klínískra plássa. Einnig þarf að efla gæði kennslunnar og námsins sem þar fer fram. Færni- og herminám þarf að styrkja enn frekar ásamt því að hægt þarf að vera að nota tæknina enn frekar í klínísku námi; við erum t.d. ekki farin að nota að neinu marki tækni í sýndarveruleika til að kenna klíníska hjúkrun. Hjúkrunarfræðingar sem vinna hjá undirmönnuðum heilbrigðisstofnunum þar sem álagið er mikið finnst það vera byrði að taka á móti hjúkrunarnemum án þess að fá fjárhagslega umbun fyrir. Skoða þarf allar leiðir til að hægt sé að fjölga hjúkrunarfræðingum en skortur á hjúkrunarfræðingum einskorðast ekki við höfuðborgarsvæðið og Landspítala. 

Forseti heilbrigðisvísindasviðs og deildarformaður hjúkrunarfræðideildar HA fóru á fund heilbrigðisráðherra í ágúst sl. vegna áhuga skólans á að fjölga brautskráðum hjúkrunarfræðingum til að koma á móts við þann mikla skort á hjúkrunarfræðingum sem er framundan í íslensku heilbrigðiskerfi. Þar kom fram að ráðherrar mennta- og heilbrigðismála ætluðu að stofna vinnuhóp til að skoða hvernig hægt væri að fjölga hjúkrunarfræðingum. Nýjar leiðir þarf að fara í að finna lausn á takmarkandi þáttum við kennslu hjúkrunarnema.

Eyjólfur Guðmundsson, rektor HA, segir það vel koma til greina að HA taki að sér enn fleiri nemendaígildi að því gefnu að skipulag klíníska námsins verði endurhugsað. Heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri er meira en tilbúið til að taka þátt í þeirri vinnu og nýsköpun.

Nýjast