Fá frítt í Sjóböðin ævilangt

Fyrsta skóflustungan tekin að Sjóböðunum á Húsavíkurhöfða. Mynd: Heiðar Kristjáns
Fyrsta skóflustungan tekin að Sjóböðunum á Húsavíkurhöfða. Mynd: Heiðar Kristjáns

Í gær þriðjudag var viðburðarríkur dagur í ferðaþjónustu á Húsavík. Klukkan 16 fór fram hátíðleg athöfn á Húsavíkurhöfða þegar tekin var fyrsta skóflustungan að Sjóböðum sem stefnt er að því að opna árið 2018. en á bak við fram­kvæmd­ina stend­ur fé­lagið Sjó­böð ehf. Hlut­haf­ar þess eru fé­lög­in Tæki­færi hf., Norður­sigl­ing, Baðfé­lag Mý­vatns­sveit­ar, Orku­veita Húsa­vík­ur og Dimmu­borg­ir ehf.

Guðbjartur Ellert Jónsson framkvæmdastjóri Norðursiglingar og stjórnarformaður Sjóbaða ehf. flutti ávarp við athöfnina ásamt Ragnheiði Elínu Árnadóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Sjóböðin 2016

Fyrir Sjóböðin verður notað vatn sem kemur upp úr borholu á Húsavíkurhöfða. Þetta vatn er sérstakt að efnisinnihaldi, í því er m.a. náttúrulegur klór og er það ríkt af söltum og má með einföldum hætti líkja við heitan sjó. Reynslan sýnir að þetta salta vatn hefur t.d. góð áhrif á húðvandamál.

Þetta hófst með Ostakarinu

Árið 1992 hóf hópur fólks að nota vatn úr þessari borholu til baða í gömlu ostakari sem komið var fyrir á Húsavíkurhöfða og þóttu böðin strax hafa góð áhrif á ýmis húðvandamál og sjúkdóma s.s. psoriasis. Ostakarið hefur notið mikilla vinsælda alla tíð síðan hjá heimamönnum en ekki síður meðal erlendra ferðamanna sem í síauknum mæli hafa lagt leið sína að Húsavíkurhöfða til að baða sig í karinu.

Það er því óhætt að segja að þessi hópur fólks sem stóð að opnun Ostakarsins á sínum tíma séu frumkvöðlar í heilsuböðum á svæðinu. Það var því við hæfi að fulltrúar úr þessum hópi fengu heiðurinn að því að taka fyrstu skóflustunguna að hinum nýju Sjóböðum ásamt Ragnheiði Elínu.

Enn fremur tilkynnti Guðbjartur í ávarpi sínu að þessi hópur frumkvöðla myndu fá ótakmarkaðan aðgang að sjóböðunum ævilangt ásamt mökum sínum sér að kostnaðarlausu. „Það er verið að sýna þeim ákveðna virðingu fyrir að hafa byrjað á því að nota þetta vatn til heilsubaða,“ sagði hann.

Sjóböð 2016

Í samtali við Vikudag.is lýsti Guðbjartur vígslum dagsins sem miklum áfangasigrum hjá fyrirtækinu og í raun fyrir umhverfisvæna ferðaþjónustu almennt. „Það er búið að vera lengi í bígerð að hleypa þessu verkefni af stokkunum og nú er það loks komið formlega af stað,“ sagði hann um athöfnina á Húsavíkurhöfða.

Ragnheiður Elín sem einnig flutti ávarp, lýsti yfir ánægju sinni með þessa framkvæmd sem er enn einn liðurinn í þeirri miklu uppbyggingu ferðaþjónustu sem átt hefur sér stað á Húsavík og nágrenni undanfarin ár. Út­lit er fyr­ir að um 200 þúsund ferðamenn komi til Húsa­vík­ur á þessu ári og Sjó­böðin eru því kær­kom­in viðbót við afþrey­ingu sem í boði er á svæðinu, en útsýni verður frá baðstaðnum út á Skjálf­anda og yfir í Kinn­ar­fjöll­in. Gert er ráð fyr­ir að fyrsta rekstr­ar­árið muni um 40 þúsund gest­ir koma í böðin og fjölga eft­ir það.

Stórt skref í rafvæðingu bátaflotans

Að lokinni athöfn á Húsavíkurhöfða var farið niður að höfn þar sem Ragnheiður Elín vígði Andvara, nýjasta rafbát Norðursiglingar. Andvari er því annar rafbátur í flota Norðursiglingar en fyrir er skonnortan Opal. Framtíðarsýn fyrirtækisins byggist að verulegu leyti á því að rafvæða allan flota sinn.

Vígsla Andvara 2016

Við vígslu Andvara fluttu Guðbjartur og Ragnheiður Elín ávörp á ný ásamt Kristjáni Þór Magnússyni sveitar- og hafnarstjóra Norðurþings. Í ávörpum þeirra mátti greina ákveðinn samhljóm um að nýta þurfi þessar endurnýtanlegu orkuauðlindir sem Íslendingar eiga, hvort sem það væri til að rafvæða bátaflota, bíla eða annað.

Rauði þráðurinn var sem sagt möguleikarnir sem græn orka býður upp á. Kristján talaði m.a. um það að það væri framtíðarsýn sveitarfélagsins Norðurþings að koma á einhvers konar grænni höfn við Húsavík, þar sem koma mætti fyrir rafhleðslustöðvum fyrir bæði bíla og skip.

Að lokinni athöfn var gestum boðið að þiggja léttar veitingar á Hvalbak, nýjasta veitingahúsi Norðursiglingar.

Hvalveiðibátur sem sökk

Andvari er gamall eikarbátur sem gengið hefur undir ýmsum nöfnum í gegnum tíðina og er systurskip seglskipsins Hildar, einnig í flota Norðursiglingar. Báðir bátarnir voru á sínum tíma smíðaðir á Akureyri hjá Bátasmiðju Gunnlaugs og Trausta.

Báturinn, sem um tíma var gerður út á hrefnuveiðar, sökk í Sandgerðishöfn fyrir nokkrum árum. Norðursigling keypti skrokk skipsins og hefur nú endursmíðað bátinn sem eitt umhverfisvænasta hvalaskoðunarskip veraldar. Við endurhönnun Andvara var að miklu leyti stuðst við þá þekkingu sem sem varð til við breytingarnar á skonnortunni Opal sem eins og Andvari, gengur fyrir rafmagni.

Nýjast