Skammarstrik í Freyvangi

Ofvirki drengurinn Emil í Kattholti sýnir vel hvernig sveitin í gamla daga tók á orkuboltum sem höfðu meiri orku en einbeitni. Í sveitinni var nóg að gera. Að tálga spýtukarla var trúlega betra en þurfa að sitja kyrr í skólastofu. Nú fá ofvirkir pillur en ekki útrás. Sýning Freyvangsleikhússins á sögum af Emil í Kattholti tekur ekki beinlínis á þessu efni. Þetta verk eftir Astrid Lindgren er öðrum þræði skemmtisaga en hún er líka um leið hugleiðing um afbrigðið í mannheimi sem litið er hornauga, ólátabelginn góðhjartaða.

 

Ný leikgerð

Saga Jónsdóttir leikstjóri og leikhópurinn í Freyvangsleikhúsinu leggja megináherslu á gamanleikinn og ærslin. Frumflutt er hérlendis ný leikggerð eftir Anders Baggesen og Sören Dahl. Tónlist er að mestu eftir Sören Dahl en einnig heyrast sígild Emilslög eftir Georg Riedel. Sýningin er fyrst og fremst  fjölskyldusýning og í stórum dráttum vel heppnuð. Skýrt kemur fram að ástvinum Emils þykir vænt um Emil eins og hann er. Pabbi Emils er miklu meinleyislegri en við erum vön og tök hans á Emil öllu linari. Og strákapör Emils eru líka hóflegri. Sterkt er vissulega atriðið þar sem boðist er til að safna fé til að senda Emil til Ameríku og losna þannig við hann en það væri mun sterkara ef togstreita þeirra feðga væri meiri í sýningunni.

 

Leikararnir standa sig vel og frammistaða þeirra er nokkuð jöfn. Mest mæðir auðvitað á Emil og foreldrum hans ásamt vinnukonunni Línu og Alfreð vinnumanni. Þáttur Línu og Alfreðs er óvenjustór í þessari sýningu. Erla Ruth Möller leikur Línu nokkuð eftirminnilega og sýnir oft góða takta en eftirminnilegust eru þau Sigurður Bogi Ólafsson í hlutverki Emils og Steingerður Snorradóttir sem leikur Ídu. Svo ung sem Steingerður er fannst mér hún sýna mikla yfirvegun. hún fór mjög skýrt með textann og söng eins og engill. Enginn frumsýningarskrekkur þar. Sigurður Bogi er líka góður í hlutverki Emils en skammarstrikin hans hefðu mátt vera enn meira krassandi í uppsetningunni.

Fullu hænurnar snilld

Leikmynd er haganlega gerð og fyrir bregður mjög vel unnum leikhúsbrellum. Hæst ber þar atriðið þegar Emil gefur grísnum og hænunum gerjuðu kirsuberin. Það er geysilega vel útfært í leikgerðinni og beinlínis fyndið, sérstaklega hænurnar. Búningar eru vandaðir og sannfærandi, gefa ásamt leikmyndinni þennan gamla sænska sveitaanda sem við tengjum við Emil og margar aðrar sögur eftir Astrid Lindgren. En í því umhverfi fannst mér reyndar orðið ókei ekki alveg eiga heima.

Ef til vill má kenna það frumsýningarstreitu en mér fannst vanta örlítið meiri ró og yfirvegun í verkið allt og sumir leikaranna töluðu á köflum óþarflega hratt. Sýningin líður nokkuð fyrir þennan hraða. Farið er hratt yfir sögu og ef til vill hefði mátt fækka atriðunum og nostra betur við þau sem eftir stæðu. Á köflum var svolítið eins og verið væri að drífa hlutina áfram sem kannski má skrifa á frumsýningarstreitu líka. Á móti kemur að hröð atburðarásin gerir að verkum að engum leiðist eina mínútu.

Tónlistin góð

Sýning Freyvangsleikhússins á ævintýrum Emils í Kattholti er hin besta skemmtun. Mikið er í hana lagt, allt vel æft, tónlistinni gert hátt undir höfði undir stjórn Lindu Guðmundsdóttur tónlistarstjóra, mikill söngur og lifandi hljómsveit sem gefur góða stemmningu. Uppselt er á nokkrar fyrstu sýningarnar nú þegar og greinilegt að Freyvangsleikhúsið hefur slegið í gegn enn eina ferðina.

Pétur Halldórsson.

 

 

Nýjast