Sek á félagsvísindatorgi HA á morgun
Á morgun fjalla Hrafnhildur Hagalín, leikskáld og Ingibjörg Huld Haraldsdóttir, leikstjóri um verkið Sek sem sett verður upp hjá LA í október. Erindið ber yfirskriftina: Sek - Hvernig frumheimild verður að listaverki. Sek er magnað leikrit sem byggir á dómsmáli frá 19. öld. Lífsþræðir ábúenda og vinnumanns í Rifshæðarseli á Melrakkasléttu fléttast saman í örlagaríkum ástarþríhyrningi. Með því að styðjast við texta og tilsvör úr dómskjölum frá þessum tíma byggir Hrafnhildur upp spennandi atburðarás sem kemur áhorfandanum sífellt á óvart. Leikskáldið og leikstjórinn munu ræða um efnistök Hrafnhildar, hvernig hún vann listrænt verk upp úr frumheimildum og hvernig það skilar sér á leiksvið.
Félagsvísindatorgið verður í stofu M102 frá klukkan 12:00 til 13:00 og eru allir velkomnir.