„Skilum þeirri skömm sem er fátækt barna og þeirra lægstlaunuðu“

Haraldur Ingi Haraldsson, oddviti Sósíalistaflokksins í NA kjördæmi.
Haraldur Ingi Haraldsson, oddviti Sósíalistaflokksins í NA kjördæmi.

Vikublaðið heldur áfram oddvitaspjallinu fyrir komandi alþingiskosningar í haust. Nú er komið að Sósíalistaflokki Íslands en það er Haraldur Ingi Haraldsson  sem er oddviti flokksins í NA-kjördæmi.

Haraldur Ingi Haraldsson er búsettur á Akureyri hvar hann er fæddur og uppalinn.

-Hver eru þín helstu áhugamál?

Mjög margvísleg og ólík.  Til dæmis: stangveiði og bóklestur, listir og íþróttir, smíðar og pólitík

-Af hverju ætti fólk að kjósa Sósíalistaflokkinn?

Vegna þess að Kærleikshagkerfið sem sósíalistar boða er góð tíðindi.  Það fjallar um að auka lýðræði, hlusta á vilja almennings og fara eftir honum. Styðja við þá veiku og fátæku. Lyfta samfélaginu upp frá botninum ekki smyrja öllu upp á blá toppinn sem hrynur svo yfir okkur öll.

-Hverjar eru ykkar áherslur?

Með því að breyta ríkisfjármálum, hefta græðgi fjármálakerfisins, taka upp félagslega bankastarfsemi með samfélagsbönkum og skattleggja þau ríku svo þau greiði sinn réttláta skerf skjótum við efnahagslegum stoðum undir það verkefni að byggja upp samfélag sem hefur hagsmuni almennings að kjölfestu og hafnar rörsýn á hagsmuni fjármagnseigenda, stórfyrirtækja og bankakerfis.

Við viljum gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi sem nær til alls landsins, gjaldfrjálsar samgöngur um land allt, nýtt fiskveiðikerfi sem færir auðinn til þjóðarinnar og setur hömlur á auðræði þeirra fáu. Skilum þeirri skömm sem er fátækt barna og þeirra lægstlaunuðu.  Sama á við um fátækt aldraðra og öryrkja, grimmilegar skerðingar og skattkerfi sem níðist á almenningi en eys forréttindum yfir þá ríku.

 

-Hvaða tækifæri sérð þú í að efla atvinnulíf á Norðurlandi eystra?

Við höfum sett fram mjög umfangsmikla stefnu sem við köllum annarsvegar „Tilboð sósíalista til kjósenda í Norðausturkjördæmi“  Sem sjá má á heimasíðu okkar.

Almennt séð má segja að með sósíalískri byggðastefnu getum við snúið áratuga löngu hnignunarskeiði við og hafið þróttmikla uppbyggingu á landsbyggðinni. Hafið löngu tímabæra uppbyggingu velferðarkerfisins með félagslegum lausnum. Sú uppbygging miðast við þarfir fólks, vonir og væntingar og er á þeirra forsendum. Sósíalísk byggðastefna er að efla pólitískt og efnahagslegt vald byggðanna.

Grundvallarstefna Sósíalistaflokksins er að fá valdið og þjónustuna heim í byggðirnar. Sósíalistaflokkurinn er landsbyggðarflokkur og sósíalísk byggðastefna er eitt af lykilstefnumálum flokksins.

-Hvernig má hlúa betur að brothættum byggðum á svæðinu?

Til að ná markmiðum um sósíalíska byggðastefnu leggur Sósíalistaflokkurinn áherslu á sex verkefni:

I. Byggjum upp heilbrigðiskerfi fyrir landið allt.

II. Kvótann heim!

Leggjum niður kvótakerfið og byggjum nýtt og lýðræðislegt kerfi.

Kvótakerfið hefur dregið mátt og vald frá byggðunum. Dregið auð og völd frá fjöldanum og flutt í hendur fámennrar auðstéttar. Þetta hefur valdið djúpstæðri spillingu og gerspillt stjórnmálastéttinni. Við viljum kvótann heim og leggja niður núverandi kerfi og færa valdið yfir auðlindum sjávar út í byggðarnar sem þá munu leita ólíkra leiða til að nýta auðlindina sem best fyrir samfélagið. Þá mun það skila margfalt meiri fjármunum í sameiginlega sjóði en veiðigjaldið gerir í dag.

III. Uppbygging félagslegs húsnæðis um allt land

Við leggjum til raunverulega lausn á húsnæðisvandanum í tilboði til kjósenda um byggingu 30 þúsund íbúða á 10 árum. Í stað þess að húsnæðismarkaðurinn sé sniðinn að þörfum fjármagnseigenda og verktaka þá verði gert stórátak í framleiðslu á ódýru og góðu íbúðarhúsnæði í félagslegum rekstri. Til að auka hreyfanleika milli landshluta er nauðsynlegt að íbúar hafi aðgengi að ódýru, félagslegu húsnæði. Það þarf að afbraskvæða leigumarkaðinn nú þegar og losa fólk undan okurleigu leigubraskaranna.

IV. Sósíalísk landbúnaðarstefna

Sósíalistar hafa þróað ítarlega landbúnaðarstefnu sem leggur áherslu á smærri og millistór býli og uppbyggingu fjölskyldurekinnar og samvinnurekinnar ferðaþjónustu. Við viljum veita afslátt á raforkuverði til gróðurhúsaræktar og setja búsetuskyldu eða aðrar takmarkanir á jarðir sem seldar eru.

Sósíalísk byggðastefna tryggir fæðuöryggi á Íslandi með stöðugri og aukinni innlendri fæðuframleiðslu og eðlilegu matvælaverði. Sósíalistar vilja auka nýsköpun í landbúnaði, sérstaklega þegar kemur að ylrækt og lífrænni framleiðslu og veita bændum hagstæð lán til þess. Áhersla verði sett á beina tengingu við býli og óþarfa milliliðir teknir burt.

Ferðaþjónusta er orðinn órjúfanlegur þáttur nútímalandbúnaðar og tryggja þarf að ekki verði gengið um of að náttúruperlum landsins.

V. Höldum vegakerfinu frjálsu

Allt vegakerfið á að vera gjaldfrjálst, kostað af ríkisvaldinu og öllum landsmönnum tryggð frjáls för um það.

Vegakerfið okkar hefur verið almannagæði að nánast öllu leyti en nú standa fyrir dyrum ákvarðanir núverandi stjórnvalda um róttæka kerfisbreytingu í anda nýfrjálshyggjunnar þar sem búast má við að allar stórframkvæmdir verði einkavæddar og vegatollar settir á. Við höfnum þeirri leið alfarið og berjumst gegn henni af öllu afli.

VI. Endurreisn samvinnuhreyfingarinnar

Árið 1882 árum tóku bændur í Þingeyjasýslum sig saman og stofnuðu samvinnufélag. Þetta var fyrsta kaupfélag landsins. Bændur uppgötvuðu að samvinna í innkaupum og sölu var rétta leiðin til að losna undan ofurvaldi kaupmanna. Upp úr þessu óx öflug samvinnuhreyfing sem Framsóknarflokkurinn komst yfir. Skemmst er frá því að segja að á vakt Framsóknarflokksins var samvinnuhreyfingin skilin eftir í rúst eftir að innanflokksmenn höfðu stolið bestu bitunum úr henni. Það gerðist eftir að flokkurinn gekk fyrir björg nýfrjálshyggjunnar.

Sósíalistaflokkurinn vill endurbyggja samvinnuhreyfingu almennings og halda Framsóknarflokknum frá henni. Það er trú okkar að samvinna og samtrygging til sjávar og sveita sé eitt öflugasta tæki alþýðunnar gegn ofurvaldi auðvaldsins.

-Hvar liggja helst sóknarfæri hér í landshlutanum?

Sjá svar hér að ofan


Athugasemdir

Nýjast