Tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir að brjóta gegn þremur piltum
Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt 53 ára karlmann í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir hegningar- og barnaverndarlagabrot gagnvart þremur piltum á síðasta ári. Piltarnir eru fæddir árið 1998.
Maðurinn játaði brotin og lýsti iðran sinni. Lögreglan handtók manninn í desember og var hann færður í fangaklefa, en í framhaldi af því lagði lögreglan hald á tölvubúnað á heimili mannsins og á vinnustað hans, en einnig aðra muni. Við rannsókn kom í ljós að maðurinn var með fjórar netsíður í tölvubúnaði, þrjár þeirra voru undir dulnefnum. Hann viðhafði meðal annars kynferðislegt tal við piltana á facebook síðum og mælti sér mót við þá í því skyni að hafa kynferðismök. Einn pilturinn upplýsti að hann hefði orðið fyrir kynferðislegri misnotkun. Fyrir liggur að pilturinn hefur þurft á sérfræðiaðstoð og ekki er útséð hvenær henni lýkur.
Auk fangelsisvistar er manninum gert að greiða forráðamönnum piltanna samtals 1,3 milljónir króna í miskabætur. Þá er honum gert að greiða 1,5 milljónir í sakarkostnað.