Ríkasta kona landsins
Stella Stefánsdóttir á Akureyri fagnar í dag 90 ára afmæli sínu, en hún er ættmóðir 189 afkomenda og það styttist í að einn einn bætist við. Afkomendur Stellu hafa nú fengið staðfestingu frá Íslendingabók um að enginn annar Íslendingur eigi fleiri afkomendur. Hún telst því vera ríkasti Íslendingurinn. Einungis ellefu núlifandi Íslendingar eiga fleiri en 100 afkomendur, samkvæmt Íslendingabók. Stella og eiginmaður hennar, Gunnar Konráðsson, eignuðust fjórtán börn og eru þrettán þeirra á lífi. Þau bjuggu lengst af í Innbænum, Lækjargötu 22a. Gunnar er látinn og Stella hefur undanfarin ár búið á fimmtu hæð í Mýrarvegi 117, þar sem útsýni er í allar áttir. Hún er við góða heilsu og sér um sig sjálf.
Enginn leikskóli
Við eignuðumst tíu stelpur og fjóra stráka. Sem betur fer voru stelpurnar í meirihluta, þær eru miklu þægilegri í uppeldi en strákarnir. Þau voru nú reyndar aldrei öll heima á sama tíma, stelpurnar hjálpuðu mikið til og það var í raun alltaf nóg pláss hjá okkur. Jú, jú, auðvitað var nóg að gera, en þetta hafðist allt saman.Gunnar vann í mörg ár utan Akureyrar, þannig að ég var oft á tíðum ein með börnin. Ég setti þau bara út fyrir dyrnar á morgnana og þau björguðu sér sjálf.
Hvað með leikskóla ?
Ég ætlaði einu sinni að setja tvær stelpur á leikskóla, en þær voru ekkert hrifnar af því. Þær vildu miklu frekar vera í frelsinu heima, þannig að ekkert barnanna var vistað á leikskóla. Í dag er þessu víst öðruvísi háttað.
Ítarlega verður rætt við Stellu í prentútgáfu Vikudags