MATUR--?INN 2013 á Akureyri um næstu helgi

Sýningin MATUR-INN 2013 hefst í Íþróttahöllinni á Akureyri næstkomandi föstudag kl. 13. Sýningin stendur í tvo daga og eru sýnendur um 30 talsins, allt frá smáframleiðendum upp í stór fyrirtæki. Sýningin er nú haldin í sjötta sinn en hún er haldin á tveggja ára fresti. Síðast sóttu hana hátt í 15 þúsund manns á tveimur sýningardögum. Sýningin verður opin kl. 13-20 á föstudag og kl. 13-18 á laugardag. Aðgangur að sýningunni er ókeypis.

Fjölbreyttur sýnendahópur

Að sýningunni stendur félagið Matur úr Eyjafirði en sýnendur eru bæði af Eyjafjarðarsvæðinu og víðar af Norðurlandi, sem og af Austurlandi. Þungamiðjan í sýningunni er norðlensk matarmenning og matreiðsla eins og hún gerist best. Sýnendahópurinn er fjölbreyttur en þar er að finna framleiðslufyrirtæki, veitingafyrirtæki, bændur, drykkjarvöruframleiðendur, þjónustufyrirtæki við matvælaiðnað og þannig mætti áfram telja. Auk hefðbundinna bása er á sýningunni svæði bjórframleiðslufyrirtækja og markaðstjald smáframleiðenda þar sem meðal annars má fá glænýjar og ljúffengar sultur, grænmeti beint úr garðinum og margt fleira.

Sýningin er sölusýning og geta sýningargestir gert góð kaup hjá sýnendum, jafnframt því að kynna sér framleiðslu þeirra.

Dömulegir desertar og veislur í heimahúsum!

Í anddyri Íþróttahallarinnar verður Samherji hf. með sögusýningu í tilefni af 30 ára afmæli fyrirtækisins en þeim tímamótum fagnar fyrirtækið í ár. Báða sýningardagana verður dagskrá í eldhúsi sýningarinnar þar sem leikmenn spreyta sig í skemmtilegum keppnum. Klúbbur matarreiðslumeistara á Norðurlandi hefur umsjón með þessari dagskrá en meðal annars munu þjóðþekktir einstaklingar keppa síðdegis á föstudag í súpugerð og um miðjan dag á laugardag taka konurnar völdin og keppa um hver gerir dömulegasta desertinn. Fyrr þann sama dag spreyta matreiðslunemar sig á matreiðslu á hráefni úr héraði.

Heimaveislur í þágu þjónustu við krabbameinssjúka

Líkt og áður verður uppboð á gjafakörfum á sýningunni síðdegis á laugardag en sýnendur leggja fram gjafir í körfurnar. Þar verða t.d. boðnar tvær 8 manna veislur í heimahúsi sem Klúbbur matreiðslumanna á Norðurlandi gefur og innifela þær hráefni, matreiðslu, framreiðslu og meira að segja uppvask. Það er því eftir miklu að slægjast en allur ágóði af uppboðinu rennur til Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis. Uppboðið hefst kl. 16:15 á laugardag.

Halla Björk Reynisdóttir, formaður bæjarráðs Akureyrar, opnar sýninguna formlega kl. 13.15 á föstudag og þá verða einnig frumkvöðlaverðlaun félagsins Matur úr Eyjafirði veitt.

Nýjast