Haustmarkaður hjá Grasrót
Á laugardaginn kemur verður opið hús og matarmarkaður í Grasrót milli kl. 11-17 við Hjalteyrargötu 20. Þar verður hægt að kaupa matvæli frá framleiðendum í héraði og meðal þess sem verður á boðstólnum er nautakjöt, harðfiskur, kartöflur, geitakjöt, sauðaís, býflugnahunang, hrökkbrauð, konfekt, pestó, sultur og brauð, te og fjallagrös, svo eitthvað sé nefnt.
Yfir 30 manns eru með vinnustofur í húsinu og fást þar við fjölbreytt störf; listmálun, fatasaum, tréskurð, eldsmíði, sandblástur og margt fleira. Starfsemi félagsins hefur það markmið að leiða saman einyrkja búa til góða, ódýra starfsaðstöðu þar sem fólk nýtur góðs af félagsskapnum til að þróa sínar vörur og hugmyndir.
Við höldum reglulega opin hús og setjum upp fjölbreytta markaði, í þetta sinn er það matarmarkaður en svo þegar nær dregur jólum höldum við stóran handverksmarkað, það er alltaf eitthvað í gangi hjá okkur, segir Sigulaug Hanna Leifsdóttir, verkefnastjóri Grasrótar.