Bæjarstjórinn harmar lokun

Ákveðið hefur verið að loka skrifstofu Umboðsmanns skuldara á Akureyri. Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri er ekki sáttur við þessa ákvörðun, samkvæmt tilkynningu í morgun:

„Harma ber þá ákvörðun að loka eigi útibúi Umboðsmanns skuldara á Akureyri. Óhætt er að fullyrða að mikil þörf er fyrir starf embættisins á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu en að auki hefur starfsstöðin veitt einstaklingum og fjölskyldum í skuldavanda á Austurlandi og annars staðar á Norðurlandi þjónustu. Á Eyjafjarðarsvæðinu búa innan við 8% þjóðarinnar en til útibúsins á Akureyri hafa þó borist u.þ.b. 360 umsóknir (en ekki 320 eins og mishermt hefur verið) sem er 12% af heildarumsóknum til stofnunarinnar á landsvísu. Stöðugildi hjá Umboðsmanni skuldara hafa verið um 70 en fyrirhugað er að fækka þeim í 55. Fæ ég engan veginn séð hvers vegna skera þarf niður þau 2 stöðugildi sem verið hafa á Akureyri þar sem eftirspurn eftir þjónustunni er þó jafn mikil og raun ber vitni. Afar brýnt er að verja þau opinberu störf sem sinnt er á landsbyggðinni og skýtur skökku við að loka nú útibúinu á Akureyri sem þýðir einvörðungu að leysa verður úr vanda þessara 12% umsækjenda frá skrifstofunni í Reykjavík,“ segir Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri.

Nýjast