99. þáttur 26. september 2013

Ríkisútvarpið - musteri íslenskrar tungu

Í fyrri viku sýndi danska sjónvarpið, Danmarks radio, þátt sem nefndur var Kampen om sproget - „átökin um tungumálið“. Í þessum fróðlega þætti var komið víða við. Bent var á að margt hefði breyst frá því DR hóf sjónvarpssendingar 1951, hálfum öðrum áratug áður en sjónvarpssendingar Ríkisúrvarpsins hófust, að ekki sé talað um breytingar frá því danska ríkisútvarpið var stofnað og hóf útsendingar árið 1925, fimm árum áður en Ríkisútvarpið hóf útsendingar. Einnig var á það bent að sjónvarp og útvarp hefðu haft mikil áhrif á danska tungu. Kæmu áhrifin t.a.m. fram í því, að mállýskumunur í Danmörku hefði minnkað stórlega, enda þulum og fréttamönnum ekki verið leyft að nota mállýskuframburð heldur hefði mál og menning millistéttarinnar í Kaupmannahöfn sett mark sitt á málfar og jafnvel efnisval útvarps og sjónvarps.

Í einum þessara þátta DR var endurtekið gamalt viðtal við fyrsta kvenþul danska útvarpsins. Var hún spurð hvað hún teldi skipta mestu máli til þess að geta orðið góður þulur - og hún svaraði að bragði: Í fyrsta lagi verða þulir að hafa góða rödd, í öðru lagi þurfa þeir að kunna málið og í þriðja lagi verða þeir að vita hvar unnt er að afla sér upplýsinga um tungumálið - ef þekkingu brestur. Þetta er lærdómsríkt svar. Líkur benda til að svipaðar reglur hafi gilt í Ríkisútvarpinu hvað þuli varðar, því að þulir Ríkisútvarpsins hafa hingað til haft góða rödd, vandað mál sitt og leitað sér upplýsinga um tungumál - ef þekkingu brestur.

Fréttamenn Ríkisútvarpsins hafa hins vegar verið af misjöfnu bergi brotnir. Segja má að þar hafi hver sungið með sínu nefi frá fyrstu tíð. Raddgæði, framburður og málsmeðferð hafa verið misjöfn, sumir nefmæltir, aðrir mæltir í kverk, nokkrir dimmraddaðir mjög og einstaka bjartróma - svo ekki sé sagt skrækróma - og mál einstaka borið mállýskueinkenni. Þetta hefur gefið fréttaflutningi Ríkisútvarpsins sérstakan svip. Hins vegar verður að geta þess að enginn viðurkenndur, samræmdur framburður er til á Íslandi, eins og í sumum öðrum löndum. Þá skiptir meira máli að fréttamenn séu réttsýnir, glöggir og gæti hlutleysis en að þeir hafi hafa góða rödd - þótt það saki að sjálfsögðu ekki. Aftur á móti verður að gera þá kröfu til fréttamanna Ríkisútvarpsins að þeir tali rétt mál og reyni að vanda framburð sinn.

Einn af gömlum þulum DR sagði í þættinum Kampen om sproget, að hann vildi óska þess að fegursta og besta danskan væri danskan í DR - „det beste dansk var DR dansk“. Á Íslandi hefur Ríkisútvarpið verið kallað musteri íslenskrar tungu og má auk þess kallast fjölmennasti skóli landsins sem hefur mikil áhrif, bæði á viðhorf fólks og málfar. Því mætti óska sér - og jafnvel ætlast til þess - að fegursta íslenskan sé íslenska Ríkisútvarpsins.

Tryggvi Gíslason,

tryggvi.gislason@simnet.is

 

Nýjast