100. þáttur 3. október 2013
Stílfræði og mælskulist
Stílfræði er sú grein málvísinda sem fæst við rannsóknir, greiningu og skýringar á einkennum talaðs máls og ritaðs Stílfræði á rætur að rekja til málskrúðsfræði fornaldar, retóríkur, sem var í hávegum höfð meðal Grikkja og Rómverja. Málskrúðsfræði var hluti af hinum sjö frjálsu listum - septem artes liberales - og var skipt í tvennt: þríveginn - trivum, og fjórveginn - quadrivium. Í þríveginum voru málfræði, grammatica, málskrúðsfræði, rhetorica, og rökfræði, dialectica. Í fjórveginum voru hins vegar hljómlist, musica, reikningur, arithmetica, rúmfræði, geometria, og stjörnufræði, astronomia. Má segja að þetta hafi lengi verið grundvöllur að námi í lærðum skólum í Evrópu og skiptingin í þríveg og fjórveg að vissu leyti skipting í máladeild og stærðfræðideild í skólum á Norðurlöndum.
Fyrir tæpum tveimur áratugum kom út Íslensk stílfræði eftir Þorleif Hauksson og Þóri Óskarsson. Í bókinni er ágrip af sögu mælskulistarinnar, sem ættuð er frá Grikklandi hinu forna, og þar er einnig gerð grein fyrir stílgreiningu, sem svo er nefnd, auk þess sem rakin er saga íslenskrar stílfræði frá upphafi. Er þetta afar fróðleg, skemmtileg - og gagnleg lesning.
Í mælskulist - bæði til forna og enn í dag - er markmiðið að sannfæra áheyrendur og fá þá á band ræðumanns eða a.m.k fá þá til að skilja afstöðu ræðumannsins. Sjálfur Aristóteles talar um þrenns konar ræðugerð: pólitískar ræður, ræður fyrir dómstólum og tækifærisræður. Við þessar þrjá ræðugerðir gilda fimm grundvallaratriði eða fimm áfangar. Í þessum fyrirmælum felast leiðbeiningar um vinnuferli fyrir þá sem vilja vanda mál sitt og verða góðir ræðumenn. Í fyrsta áfanga á ræðumaður að safna efni í ræðu sína. Í öðrum áfanga skal hann raða efninu niður og því nefndur dispositio á latínu, efnisskipan. Fyrstu tveir áfangarnir lúta að efni ræðunnar. Í þriðja áfanga er efnið fært í búning málsins, þ.e.a.s. færð í orð - og skrifuð niður. Fjórði áfangi fólst í því að leggja ræðuna á minnið - læra hana utan að sem talinn er mjög mikilsverður til þess að ná til áheyrenda. Fimmti áfanginn felst svo í því að ákveða hvernig heppilegast er að flytja ræðuna. Lögð er áhersla á að efni og form renni saman í eina heild.
Mikilsverður þáttur í mælsku- og ritlist er uppbygging ræðunnar og hins ritaða máls, efnisskipanin - dispositio, sem nefnd var hér að ofan. Í skólum á Íslandi var í ritgerðasmíð talað um þrjá þætti: upphaf, efnisfrásögn og niðurlag. Í hinni fornu málskrúðsfræði er hins vegar talað um fimm þætti: ávarp, inngang, frásögn, úrvinnslu og lokaorð eða ályktun.
Einn af mörgum rannsóknarþáttum stílfræði og mælskulistar eru tengsl mælanda eða ræðumanns - rithöfundar eða skálds - annars vegar og hins vegar hlustanda eða lesanda. Á milli mælanda og hlustanda eða lesanda er svo textinn: ræðan, ritgerðin, sagan, ljóðið eða jafnvel orðræða í daglegu lífi. Allt þetta lýtur lögmálum stílfræði eða mælskulistar sem er hluti málvísindanna, en málvísindi fjalla um þetta undursamlega tjáningartæki mannlegrar hugsunar - tungumálið.
Tryggvi Gíslason,