Rekstur Norðurorku skilaði 629 milljón króna hagnaði

Framkvæmdir upp á 6,6 milljarðar næstu fjögur ár    Mynd No
Framkvæmdir upp á 6,6 milljarðar næstu fjögur ár Mynd No

Rekstur Norðurorku gekk vel á liðnu ári. Ársvelta samstæðunnar var 5 milljarðar króna. Hagnaður ársins var 629 milljónir króna eftir skatta, eigið fé er 10 milljarðar króna. Á aðalfundi félagsins fyrr í vikunni var ákveðið að ekki verði greiddur arður af hlutafé. Samstæðureikningur samanstendur af rekstri Norðurorku og dótturfélagsins Fallorku ehf. auk áhrifa frá hlutdeildarfélögunum Tengir hf. og NORAK ehf.

Rekstur samstæðunnar var í ágætum takti við áætlanir en hagnaður þó meiri en áætlað var, sem skýrist fyrst og fremst af tekjuaukningu og lægri afskriftum.

Eiginfjárhlutfall samstæðunnar er 52,7% og veltufé frá rekstri er 1.862 milljónir króna. Hagnaður ársins var 629 milljónir króna en handbært fé í árslok einungis 73 milljónir króna. „Það gefur auga leið að staðan varðandi handbært fé er óásættanlegt og við því þarf að bregðast,“ segir í tilkynningu frá Norðurorku.  Tekin voru ný „græn“ lán á árinu að upphæð 800 milljónir króna. Langtímaskuldir í árslok voru rúmlega 7,7 milljarðar króna.

 Brúa þarf bilið með lánsfé

 Til fjárfestinga samstæðunnar í endurbótum á kerfum og til nýframkvæmda var varið rúmlega 2,1 milljarði króna sem var nokkuð umfram áætlun ársins. Miðað við fjárfestingar ársins vantar 240 milljónir til þess að veltufé frá rekstri standi undir fjárfestingum. Það bil, og meira til, þarf að brúa með lánsfé.  Miklar framkvæmdir eru á starfssvæði Norðurorku og eru fjárfestingar móðurfélagsins, horft til næstu fjögurra ára, áætlaðar ríflega 6,6 milljarðar króna.

 Verkefni liðinna ára hafa verið stór og verða áfram, einkum í hitaveitu. Mikil aukning er í notkun á jarðhitavatni í samfélaginu, langt umfram fólksfjölgun. Bendir Norðurorka á að mikilvægt sé að hafa í huga að auðlindir okkar í heitu og köldu vatni eru ekki óþrjótandi. Sýna þurfi ábyrgð á nýtingu þeirra.

 Sóun hraðar fjárfestingar þörf í inniviðum

Rík þörf er á að verðskrá hitaveitu dragi úr óþarfa notkun en „snjallmælar“ munu skapa möguleika á þrepaskiptum verðskrám sem umbuna þeim sem vanda sig og fara vel með. Sóun á heitu vatni og neysluvatni eykur og hraðar fjárfestingaþörf í innviðum, sem kallar á hækkanir á verðskrá. „Því er mikilvægt að horfa til þeirra tækifæra sem felast í því að fara vel með og forðast sóun á auðlindunum.“

 Í stjórn Norðurorku voru kjörin þau Geir Kristinn Aðalsteinsson, Hilda Jana Gísladóttir, Hlynur Jóhannsson, Sóley Björk Stefánsdóttir og Þórhallur Jónsson. Eigendur félagsins eru sex sveitar­­félög, Akureyrar­bær, Eyjafjarðarsveit, Grýtubakkahreppur, Hörgársveit, Svalbarðsstrandarhreppur­ og Þingeyjarsveit.

 


Athugasemdir

Nýjast